235 - Gleymda stríðið og svanasöngur Downton Abbey
08 November 2025

235 - Gleymda stríðið og svanasöngur Downton Abbey

Heimskviður

About
Við rýnum í stríðsátökin í Súdan og hrottalegar aftökur sem þeim tengjast í Heimskviðum í dag. Það er stundum kallað gleymda stríðið því fjölmiðlar fjalla mun minna um það en önnur sem hafa geisað síðustu ár og áratugi. Það er þrátt fyrir að þar hafa á annað hundrað þúsund verið drepin, tugmilljónir þurft að reiða sig á neyðaraðstoð og eina mestu hungursneyð síðustu áratuga. Alþjóðaglæpadómstóllinn hefur til skoðunar hvort hrottalegar fjöldaaftökur RSF-sveitanna í borginni el-Fasher séu stríðsglæpir eða glæpir gegn mannkyni. Talið er að liðsmenn þeirra hafi drepið hátt í tvö þúsund manns í borginni síðustu vikur. Oddur Þórðarson ætlar að skoða síðustu vendingar, meðal annars vopnahléssamkomulag sem bandaríkjastjórn kynnti í vikunni.

Svo ætlum við að kveðja Downton Abbey. Nú geta kvikmyndagestir séð svanasöng Downton Abbey í kvikmyndahúsum. Þriðju og síðustu myndina sem kemur í kjölfar feykivinsælla sjónvarpsþáttaraða um Crowley fjölskylduna og aðra íbúa á öllum hæðum Downton Abbey. Þættirnir hafa unnið alþjóðleg verðlaun um allan heim, slegið áhorfsmet og persónurnar eiga sér margar fastan sess í hjörtum aðdáenda. Um þetta eru allir viðmælendur Birtu Björnsdóttur sammála, en hún skoðaði þættina vinsælu, tilurð þeirra og arfleið.